Jörð í hættu!? er nemendastýrt leitarnám. Það þýðir að þú, nemandinn ræður ferðinni. Verkefninu er skipt upp í þemu og þú velur þér viðfangsefni sem tengist þemanu hverju sinni. Gott er að hafa lesið eitthvað um þemað áður en ákvörðun um viðfangsefni er tekin. Mikilvægt er að velja sér viðfangsefni sem manni finnst áhugavert, eða langar að læra meira um.

Hlutverk kennarans er að vera leiðbeinandi, eða verkstjóri og hvetja nemendur til sjálfstæðra vinnubragða. Í stað þess að mata nemendur með staðreyndum og þekkingu, aðstoðar kennarinn nemendur í þeirra eigin þekkingarleit.

Nemendur velja hvaða leið þeir fara í verkefnavinnunni

Nemendur velja hvaða leið þeir fara í verkefnavinnunni

Þemaverkefnið er heimildaverkefni og vinna nemendur í hópum. Hæfilegur fjöldi í hóp eru 3 nemendur. Stundum dregur kennari í hópa, velur í hópa, eða leyfir ykkur að ráða. Hver hópur velur sér eitt viðfangsefni í sameiningu og þarf að vinna út frá a.m.k. þremur heimildum (tvær af netinu og annað úr bókum, geta einnig verið mælingar eða tilraunir).

Nemendur þurfa að nota hugarflugið og rökhugsun og fylgja skrefum leitarnáms.

1.       Rannsóknarefni og leiðarspurning

Í upphafi veltum við viðfangsefninu fyrir okkur.

Hvað skal skoða?

Hver er vandinn? Þarfir?

Þið búið ykkur til rannsóknarspurningu sem þið ætlið að svara með verkefninu. Berið spurningu undir kennara.  

2.       Tilgáta og hugmyndir

Hver er líkleg lausn eða svar við spurningum okkar?

Hvaða hugmyndir höfum við um viðfangsefnið?

3.       Athugun, könnun eða gagnasöfnun

Gagnasöfnun getur farið fram með beinum tilraunum, nákvæmum mælingum eða heimildakönnun.

4.       Greining og úrvinnsla

Mælingar eða gögn eru borin saman við sambærilegar mælingar og í kjölfarið er hægt að draga ályktanir.

5.       Ályktanir og niðurstöður

Helstu niðurstöður eru dregnar saman og settar fram.

 

Nemendur skipuleggja verkefnið, gera rannsóknarspurningu og ákveða hvernig afurð þeir vinna. Í verkfærakistunni má fá ýmsar hugmyndir en markmiðið er að nemendur vinni sjálfstætt, leiti sér fanga á vefnum og útvegi hráefni sjálfir. Heima eða í gagnabanka kennara. Mikilvægt er að virða eignarrétt annarra og skólans og ekki er leyfilegt að ganga á milli kennslustofa í leit að hráefnum. 

Afurð

Afurð getur verið; tilraun, myndband, dans, ljósmyndir, ljóð, gjörningur, grein í blað, bæklingur, auglýsing… hvað sem ykkur dettur í hug. Skilyrðið er að nota aðeins endurunnin efni.

Þið skipuleggið vinnu ykkar

Þið skipuleggið vinnu ykkar

Tímaskipulag

Þið skipuleggið vinnu ykkar, ákveðið hvað skal gera hvenær og hver verkaskiptingin er. Tímaramminn er þröngur – það sem ekki er unnið í skóla þarf að vinna heima.