Gera má líkön úr hlutum, pappamassa, legókubbum, leir, eða hverju sem nemendum dettur í hug. Nemendur geta sjálfir búið til leir eða lím (hveitilím). Ef einhverjum dettur í hug, mætti útfæra líkan með bakstri af einhverju tagi. Hentugt er að hafa límbyssur við höndina í líkanagerð. Þær kosta um 1000 kr í byggingarvöruverslunum og múrbúðum.

Ef teikna á arkítektateikningu, mætti fylgja reglum um merkingar á slíkum myndum sbr. hér. Einnig má nota forrit eins og t.d. powerpoint, Adobe illustrator, SketchUp (má fá frítt hér), AutoCAD (sem má fá frítt hér). Einnig væri hægt að búa til staði, mannvirki eða ákveðið umhverfi í tölvuleiknum Minecraft.

Nemendur eru oft fljótir að tileinka sér forrit og má finna góðar leiðbeiningar fyrir nemendur á hjálparsíðu Adobe, síðu SketchUp og kennslusíðu AutoCAD.  Svo má hvetja nemendur til að leita eigin fanga á vefnum. Leiðbeiningar um notkun flóknustu forrita má finna á youtube.

Leir:

2 bollar hveiti
1 bolli salt
1 bolli vatn
örlítil matarolía
matarlitur (eftir smekk, má sleppa)

Allt er hnoðað saman. Ath. þennan leir þarf að geyma í plastfilmu ef nota á hann síðar.

Trölladeig:

2 bollar hveiti
2 bollar salt
2 msk veggfóðurslím
1-2 msk. matarolía
matarlitur (eftir smekk, má sleppa)
vatn eftir þörfum

Hnoða allt saman. Mótið það sem þið viljið úr deiginu og bakið í ofni við 100°c í 8-10 mín.

Hveitilím

Hveitilím er notað í pappamassa og til að hengja upp veggspjöld víðsvegar um borgina.

1 hluti hveiti
3 hlutar vatn

Vatnið er sett í pott og hveitið sigtað. Hveitinu er bætt rólega út í vatnið þannig að ekki komi kekkir. Svo er kveikt undir pottinum og hrært í á meðan blandan hitnar. Þegar blandan byrjar að sjóða, þykknar hún og þá er límið tilbúið. Límið er borið á þann flöt sem maður vill líma á, með pensli og svo er þunnu lagi penslað yfir það sem límt var upp.