Geta til aðgerða

Ég heyri og gleymi, ég sé og ég man, ég geri og ég skil

Hvað finnst þér um loftslagsbreytingar? Hvað finnst þér um plastagnirnar í tannkreminu þínu? En plasteyjuna í Kyrrahafinu? Hvað finnst þér um sorpurðun á Álfsnesi? Lærðir þú um eitthvað í þessu verkefni sem þig langar að breyta?

Það merkilega er að þó að margir kvarti daglega yfir ákveðnum hlutum, hvort sem það er í frímínútum, á kaffistofu kennara, við kvöldmatarborðið, á facebook, nú eða í athugasemdum á fréttamiðlum þá hefur það takmörkuð áhrif. Við þurfum að gera eitthvað í málunum.

Við höfum völd til að breyta okkur sjálfum og hafa áhrif á aðra. Eina sem við þurfum að gera, er að framkvæma. Við höfum Getu til aðgerða, en það felur í sér að við höfum getu og vilja til að grípa til aðgerða.

En hvernig getum við breytt heiminum, haft áhrif á samferðafólk okkar? Jú með því að taka þátt í umræðum sýna áhuga og vilja til að vera virkir samfélagsþegnar.

Ísland er lýðræðisríki og við erum lýðurinn, við erum þjóðin. Í lýðræðissamfélagi hafa þegnar rétt til að taka þátt í ákvörðunum sem snerta þjóðfélagið. Til að virkja lýðræðislegan rétt okkar, fáum við að kjósa okkur fulltrúa sem sitja á Alþingi. Við höfum líka rétt á því að bjóða okkur fram að vera þessir fulltrúar. En til þess að lýðræði virki þurfum við að beita gagnrýnni hugsun.

Gagnrýnin hugsun merkir ekki að vera alltaf neikvæður eða að maður sé alltaf að setja út á einhvern. Gagnrýnin hugsun merkir að við séum upplýst, að við getum séð hluti frá fleiri en einu sjónarhorni, að við veltum því fyrir okkur af hverju ákvarðanir eru teknar og hvaðan þær koma. Gagnrýnin hugsun gerir einstaklingum kleift að taka upplýstar ákvarðanir og styrkir krakka, unglinga og fullorðið fólk í því að taka þátt í samfélagslegri umræðu þar sem hlustað er á skoðanir þeirra. Við getum haft áhrif með því að taka virkan þátt í samfélaginu, með því að taka þátt í umræðum, fylgjast með fréttum og nýta kosningarétt okkar sem við öðlumst við 18 ára aldur.

Við búum á jörðinni og til þess að börnin okkar, barnabörn og barnabarnabörn muni lifa við góðar aðstæður, þurfum við að grípa til aðferða. Við viljum skila jörðinni til næstu kynslóðar án þess að skemma hana. Við verðum að mæta þörfum okkar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum.

Hverju vilt þú breyta? Hvar byrjar þú? Byrjar þú heima fyrir? Flokkar þú? Hvernig er staðan í skólanum þínum? Hvernig er staðan í samfélaginu?

Þú hefur getu til aðgerða, nýttu þér hana!

Ef ekki þú hver þá?